Yngstu börnin geta fengið sjúkdómseinkenni sem vara lengi eftir að veirusýkingin sjálf er afstaðin. Jótlandspósturinn skýrir frá þessu.
Fram kemur að niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið borin saman við samanburðarhóp sem hafði ekki smitast af kórónuveirunni svo staðfest væri. Í þeim hópi voru 27% yngstu barnanna, sem ekki höfðu greinst með COVID-19, með sömu einkenni.
Selina Kikkenborg Berg, prófessor við danska ríkissjúkrahúsið, sagði að þetta væri mikill munur: „Við þekkjum til langvarandi einkenna hjá fullorðnum og ungu fólki . Það kom okkur svolítið á óvart að við sjáum svo mikið af langvarandi einkennum hjá yngstu börnunum.“
Meðal þeirra einkenna sem um ræðir eru magaverkir, þreyta, hiti, lystarleysti og hósti.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO skilgreinir sjúkdómseinkenni, sem enn eru til staðar átta vikum eftir smit, sem langvarandi COVID-19.
Rannsóknin náði til 10.997 barna á aldrinum 0-14 ára sem höfðu greinst með COVID-19. Í samanburðarhópnum voru 33.016 börn sem ekki höfðu greinst með veiruna.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Lancet Child and Adolescent Health.