Nada Al-Nashif, varaformaður mannréttindanefndar SÞ, sagði að aftökum fari fjölgandi í Íran þegar hún ávarpaði mannréttindaráð samtakanna í gær. Hún sagði að 260 hafi verið teknir af lífi 2020 en 310 á síðasta ári, þar af að minnsta kosti 14 konur. Hún sagði að þessi þróun hafi haldið áfram það sem af er ári.
Frá 1. janúar til 20. mars voru að minnsta kosti 105 manns teknir af lífi að hennar sögn. Hún sagði að margir þeirra hafi verið úr minnihlutahópum.
Í skýrslunni er lýst yfir miklum áhyggjum af fjölgun aftaka fyrir minniháttar afbrot, þar á meðal fíkniefnalagabrot. „Dauðarefsingu er enn beitt í málum sem svara ekki til „alvarlegustu afbrota“ og er því ekki í takt við staðla um sanngjarna málsmeðferð,“ sagði Al-Nashif.
Hún gagnrýndi einnig að dauðadómar séu kveðnir upp yfir ólögráða börnum og ungmennum en það stríðið gegn alþjóðalögum. Hún sagði að frá því í ágúst á síðasta ári og fram í mars á þessu ári hafi að minnsta kosti tvær aftökur farið fram þar sem hinir dæmdu höfðu brotið af sér þegar þeir voru ólögráða. Rúmlega 85 ungmenni bíða aftöku í Íran sagði hún.