Fulltrúar Demókrata og Repúblikana hafa unnið að gerð frumvarpsins síðustu vikur og kynntu það fyrir þingmönnum í gær. Markmiðið með því er að takmarka notkun skotvopna í landinu og gera ungu fólki erfiðara fyrir við að kaupa sér skotvopn.
Frumvarpið heitir „Safer Communities“ og er 80 blaðsíður. Reiknað er með að atkvæði verði greidd um það fyrir helgi en þá fara þingmenn í tveggja vikna frí.
Samkvæmt frumvarpinu verða reglur um bakgrunnskönnun hertar hvað varðar fólk yngra en 21 árs sem vill kaupa sér skotvopn. Einnig er ákvæði um aðgerðir til að koma í veg fyrir að skotvopn séu keypt í gegnum þriðja aðila.
Ríkjum landsins verður heimilað að setja lög sem koma í veg fyrir að ákveðnir aðilar geti keypt sér skotvopn ef talið er að þeim sjálfum eða öðrum geti stafað hætta af því. Einnig er kveðið á um stuðning við aukna öryggisgæslu í skólum og aðgerðir til að bæta andlega heilsu landsmanna.
Chuck Schumer, leiðtogi meirihluta Demókrata í öldungadeildinni, sagði að þetta þverpólitíska frumvarp sé framfaraskref og muni bjarga mannslífum. Það taki ekki á öllu því sem Demókratar vildu en samt sé áður sé brýn þörf fyrir það.
Mitch McConnell, leiðtogi minnihluta Repúblikana í öldungadeildinni, lýsti yfir stuðningi við frumvarpið og sagði það „byggt á heilbrigðri skynsemi“.
Frumvarpið er tilkomið vegna bylgju fjöldamorða með skotvopnum að undanförnu.