Þjóðverjar verða að draga úr gasnotkun sinni og auka notkun kola til að hægt sé að fylla gastankana fyrir næsta vetur. Þetta sagði Robert Habeck, efnahagsráðherra, í yfirlýsingu í gær. Hann sagði stöðuna vera alvarlega þar sem verið sé að draga úr notkun á rússnesku gasi.
Þjóðverjar eru mjög háðir rússnesku gasi og á það bæði við um heimilin og fyrirtækin í landinu. Þeim hefur þó tekist að draga úr kaupum á rússnesku gasi frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í lok febrúar. Nú er hlutfall rússnesks gass komið niður í 35% af heildarinnflutningi gass en var áður 55%. CNN skýrir frá þessu.
Habeck sagði að öruggt væri að landið fái gas þótt staðan á markaði versni. Hækkandi gasverð sé aðferð Pútíns til að reyna að koma Þjóðverjum úr jafnvægi, hækka verðið enn frekar og kljúfa þjóðina. „Við munum ekki láta það gerast. Við munum berjast gegn þessu af festu, nákvæmni og íhygli,“ sagði hann.
Þjóðverjar hafa haft í hyggju að draga úr kolanotkun sinni en Habeck sagði að nú sé nauðsynlegt að kynda kolaknúin raforkuver um hríð til að hægt sé að draga úr gasnotkun til rafmagnsframleiðslu. Þetta sé bitur ákvörðun en eiginlega nauðsynleg til að draga úr gasnotkun.