CNN segir að stjórnvöld hafi lýst þessu sem „bráðum iðrafaraldri“. Suðurkóreskir embættismenn segja að hugsanlega sé um kóleru að ræða eða taugaveiki.
Fyrstu fregnir af faraldrinum bárust á fimmtudaginn. Hann bætist við kórónuveirufaraldur og skort á matvælum og öðrum nauðsynjum í þessu harðlokaða einræðisríki.
KCNA ríkisfréttastofan sagði í gær að gripið hafi verið til aðgerða til að reyna að hefta útbreiðslu faraldursins. Þar á meðal sóttkvíar og sýnatöku. Þá sé fylgst sérstaklega vel með viðkvæmum hópum á borð við börn og eldra fólk.
Frá því að yfirvöld viðurkenndu um miðjan maí að kórónuveiran hefði borist til landsins hafa um 4,6 milljónir landsmanna sýnt einkenni COVID-19. Ekki er vitað hversu margir hafa látist af völdum veirunnar.