Tilrauninni lýkur í desember en fólkið, sem stendur fyrir henni, segir að þetta sé stærsta tilraun þessarar tegundar í heiminum til þessa.
Fyrirtækin greiða starfsfólkinu óbreytt laun þrátt fyrir að það vinni aðeins 80% af þeim tíma sem það myndi annars gera. Á móti hefur starfsfólkið lofað að skila sömu framleiðni og áður.
Það eru samtökin 4 Day Work Week Global sem standa fyrir tilrauninni ásamt hugveitunni Autonomy og vísindamönnum frá Cambridge háskóla, Oxford háskóla og Boston háskóla.
Vísindamenn frá háskólunum munu í samvinnu við fyrirtækin, sem taka þátt, mæla hvaða áhrif fjögurra daga vinnuvika hefur á framleiðnina, vellíðan starfsfólksins, vinnuumhverfið og jafnrétti. Jótlandspósturinn skýrir frá þessu.
Joe O‘Conner, forstjóri 4 Day Week Global, segir að Bretland sé mikilvægt land í tengslum við fjögurra daga vinnuviku. „Á meðan við erum á leið út úr heimsfaraldrinum sjá sífellt fleiri fyrirtæki að lífsgæði eru ný samkeppnisskilyrði og að styttri vinnutími og meiri áhersla á árangurinn sé það sem geti gert vinnustaðinn meira aðlaðandi,“ sagði hann.
Julia Schor, félagsfræðiprófessor við Boston háskóla og stjórnandi rannsóknarinnar, sagði að vísindamennirnir muni greina viðbrögð starfsfólksins við aukafrídegi, stress, vinnu- og lífsgleði, heilbrigði og svefn.