Eflaust kannast flestir við að hafa vaknað að morgni til við að nefið var stíflað og mikill höfuðverkur sótti á. Þá var líklega góð hugmynd að vera heima og hvílast og láta vinnuna eiga sig en vinnan kallaði, verkefnin voru mörg og því var farið í vinnu.
En það er ekki svo snjallt að gera það að mati írskra vísindamanna sem birtu nýlega niðurstöður nýrrar rannsóknar sinnar í Journal of Occupational Health Psychology.
Í umfjöllun forskning.no um málið kemur fram að írsku vísindamennirnir segi að það að fara í vinnu veik(ur) valdi aðallega vanda daginn eftir. „Þótt það geti virst góð hugmynd að vinna þrátt fyrir veikindi, til að ljúka verkefnunum, þá sýnir rannsóknin að það hefur dómínóáhrif á frammistöðuna daginn eftir,“ sagði Wladislaw Riykin, prófessor við Trinity Business Scholl í Dublin, einn höfunda rannsóknarinnar í fréttatilkynningu.
Hann sagði að þrátt fyrir að það komi vinnuveitandanum kannski vel ef fólk mæti til vinnu þrátt fyrir að það sé veikt þá sá ásættanlegt að draga úr daglegum verkefnum og gæta að heilsunni þess í stað. „Stjórnendur ættu að fullvissa starfsfólk um að ef því líði ekki vel sé í lagi að draga úr daglegum verkefnum og gæta að heilsunni þess í stað,“ sagði hann.
Í niðurstöðu sinni segja vísindamennirnir að þegar fólk er veikt sé andleg orka þess lítil og það krefjist meiri vinnu að einbeita sér og þeirri einbeitingu sé ekki hægt að ná fyrr en daginn eftir.
Rannsóknin var framkvæmd 2020. 126 manns, sem unnu heima, tóku þátt í henni og skráðu daglega vinnu sína.