Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar að sögn the Guardian. Fram kemur að vísindamenn hafi komist að því að með því að sameina upplýsingar um mynstur æða í sjónhimnunni við aðrar hefðbundnar læknisfræðilegar upplýsingar sé betur hægt að leggja mat á hættuna á að fólk fái hjartaáfall en með núverandi aðferðum sem byggja eingöngu á lýðfræðilegum upplýsingum.
Vísindamenn notuðu gögn frá UK Biobank, en þar eru gögn um sjúkrasögu og lífsstíl 500.000 manns, í blöndu við upplýsingar um aldur, kyn, blóðþrýsting, líkamsmassa og reykingar til að rannsaka fólk, sem er skráð í UK Biobank, sem hefur fengið hjartaáfall. Vísindamennirnir öfluðu sér mynda af sjónhimnu fólksins og komust að því að ákveðin einkenni á sjónhimnunni geti gefið vísbendingar um hættuna á hjartaáfalli.
Meðalaldur þeirra sem fá hjartaáfall er 60 ár. Vísindamennirnir komust að því að nýja aðferðin þeirra sagði best fyrir um hjartaáfall fimm árum áður en það átti sér stað. Þeir vonast til að í framtíðinni verði hægt að nota einfalda augnrannsókn til að spá fyrir um hættuna á að fólk fái hjartaáfall.