Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur ákveðið að halda neyðarfund í næstu viku varðandi faraldur apabólu að sögn Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra samtakanna. Samtökin ætla sér að kanna hvort lýsa ætti yfir hættuástandi vegna apabólunnar, líkt og var gert vegna COVID-19. Þessu greinir BBC frá.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segist einnig vera að vinna að nýju nafni handa veirunni og sjúkdómnum sem hún veldur vegna þess að vísindamenn telja nafnið ekki vera við hæfi.
Í bréfi sem hópur vísindamanna sendi frá sér sögðu þeir að nafnið „apabóla“ og vitnanir í afrískan uppruna hennar fari gegn reglugerðum samtakanna sem banna notkun nafna sem byggja á landafræði eða dýrum. „Í samhengi faraldursins er það að nafn veirunnar bendi til afrísks uppruna ekki aðeins misvísandi heldur valdi líka fordómum og smán,“ skrifuðu vísindamennirnir í bréfinu.
Vísindamennirnir tóku einnig fram að þrátt fyrir það að flest smit hafi verið greind í Evrópu og Norður-Afríku noti fréttamiðlar oft myndir af afrískum sjúklingum.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sagðist vera að leita ráða hjá sérfræðingum í þessari tilteknu gerð viera til að reyna að finna hæfilegra nafn. Eitt nafn sem stungið hefur verið upp á er hMPXV, samkvlmt BBC. Sjúkdómurinn var lítið þekktur utan Afríku en Tedros sagði að meira en 1600 tilfelli hafa verið greind í ár í 39 löndum, ásamt um 1500 grunuðum tilfellum, samkvæmt AP.
Veiran var nefnd apabóla vegna þess að hún var fyrst greind í tilraunaöpum en talið er að nagdýr séu meginhýsillinn í dýraríkinu.