Örplast hefur verið fundið á hinum afskekktustu stöðum. Flögrandi um yfir Pýreneafjöllum, í dýpstu hlutum sjávarins, meira að segja á yfirborði Suðurskautslandsins og í hafís. Nú hafa vísindamenn hins vegar fundið örplast í fyrsta sinn í nýföllnum snjó. Samkvæmt rannsókn sem var birt í tímaritinu The Cryosphere tóku vísindamenn við Háskólann í Canterbury í Nýja Sjálandi sýni á 19 mismunandi stöðum á Ross-eyju á Suðurskautslandi og fundu þar örplast. Þeir lýstu því sem pínulitlum ögnum, „margfalt minni en hrísgrjón,“ sem verða til úr veðrun plastefnis.
Í bræddum snjónum voru að meðaltali 29 agnir í hverjum líter. Meira en tólf mismunandi plastgerðir greindust en svokallað PET eða polyethylene terephthalate ,sem er notað í flöskur og föt, var langalgengasta gerðin. Hún fannst í meira en 80% sýna. Vísindamennirnir gera ráð fyrir því að örplastið komi frá nálægum rannsóknarstöðum en gögnin sýna að það gæti átt uppruna allt að 6000 km í burtu. Þetta sagði einn rannsakandanna Alex Aves við BBC.
Plastagnir geta borist til Suðurskautslandsins með vindi, hafstraumum og ryki frá stöðum eins og Ástralíu, Patagóníu og jafnvel norðurhvelinu. Þessi uppgötvun veldur vísindamönnum áhyggjum af margvíslegum ástæðum. Örplast getur haft skaðleg áhrif á mannfólk og svo geta þörungar einnig fest við það, borist um heiminn og skaðað vistkerfi. Örplastið gæti jafnvel aukið áhrif hnattrænnar hlýnunar. Dökkar agnir drekka í sig meira sólarljós og geta flýtt hlýnunarferlinu.
„Þetta er mjög sorglegt,“ sagði Alex í tilkynningu. Annar rannsakandi, Laura Revell, sagði hins vegar að þetta „kæmi henni ekki neitt á óvart.“ Hún bætti við: „Í þeim rannsóknum sem við höfum birt síðustu nokkur árin höfm við lært að hvar sem við leitum að örplasti, finnum við það.“