Bandaríska geimferðastofnunin NASA var með svipað verkefni á prjónunum fyrir tveimur áratugum en ekki varð af því. Breska ríkisstjórnin hefur stutt við bakið á rannsóknum á hvort hægt sé að gera þetta og koma bresku sólarorkuveri á braut um jörðina 2035.
Sky News segir að Kínverjar stefni á að skjóta fyrsta gervihnettinum, sem verður hluti af verkefninu, á loft 2028. Hann verður á braut um jörðina í um 400 km hæð og verður notaður til að prófa tæknina sem verður notuð til að flytja orku frá sólarorkuverinu.
Þessi gervihnöttur mun „breyta sólarorku í örbylgjur eða lasergeisla og síðan beina orkugeislunum að mismunandi stöðum, þar á meðal á jörðinni og gervihnöttum á braut um jörðina“ segir í umfjöllun the South China Morning Post að sögn Sky News.
Þessar áætlanir voru settar fram í smáatriðum í ritrýndri rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu Chinese Space Science and Technology.
Sky News segir að samkvæmt því sem bresk rannsókn hafi leitt í ljós þá skíni sól á jarðsnúningsbundna gervihnetti 99% af tímanum og sé mun sterkari en þegar geislarnir lenda á sólarspeglum hér á jörðinni.
Hugmyndin á bak við verkefni af þessu tagi er að safna sólarorku með orkuveri á braut um jörðina og senda hana síðan á ákveðinn stað á jörðu niðri. Einnig er hægt að beina henni á mismunandi staði og gera þannig að útflutningsvöru.
Sólarorkuver, á braut um jörðina, gæti sent orku til jarðarinnar bæði dag og nótt allt árið og algjörlega óháð veðri. En það er ekki búið að leysa allar þær áskoranir sem felast í verkefni af þessu tagi. Eftir því sem Dong Shiwei, prófessor og höfundur kínversku rannsóknarinnar, segir þá þarf gríðarlega stórt loftnet, hugsanlega mörg þúsund metra langt, til að senda orkuna til jarðar. Einnig geta sólvindar, þyngdarafl og hreyfingar gervihnatta truflað þessa orkuflutninga.