Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem vísindamenn við Technische Universität Dresden gerðu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá háskólanum.
Fram kemur að með því að nota reiknilíkön og tækni, sem gerir þeim kleift að sjá hversu gamlar frumurnar í mannslíkamanum eru, hafi þeir komist að því að lifrin verði að hámarki þriggja ára.
Með því að haldast svona ung getur hún haldið sig við verkefni sitt sem er að hreinsa eiturefni úr líkamanum.
„Það skiptir engu hvort þú ert 20 eða 84 ára því lifrin þín heldur áfram að vera að meðaltali rétt tæplega þriggja ára,“ er haft eftir Olaf Bergmann, sameindalíffræðingi við háskólann, í fréttatilkynningu.
Vísindamennirnir rannsökuðu fersk lífsýni úr rúmlega 50 látnum einstaklingum á aldrinum 20 til 84 ára. Þeir komust að því að líkaminn heldur lifrinni ungri með því að endurnýja lifrarfrumur í sífellu.
Þegar líkami okkar eldist verður sífellt erfiðara fyrir hann að endurnýja frumur og gera við aðrar en það virðist ekki eiga við lifrarfrumur en það eru sérhæfðar frumur.
En lifrarfrumur endurnýjast ekki allar jafn hratt. Lítill hluti þeirra getur orðið allt að 10 ára. Vísindamennirnir segja að það tengist því hversu margir litningar eru í þeim. Flestar frumur líkamans eru með tvö eintök af öllu genamengi okkar en lifrarfrumur eru frábrugðnar því þær eru með fleiri eintök af genamenginu.
ScienceAlert segir að frekari rannsókna sé þörf til að komast að hvort endurnýjun fruma geri að verkum að lifrin sé síður móttækileg fyrir sjúkdómum.