Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar. The Guardian skýrir frá þessu.
Langvarandi kyrrseta eða hreyfingarleysi hefur verið tengt við auknar líkur á allt frá hjartasjúkdómum til offitu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir að hreyfingarleysi sé aðalástæðan fyrir sjúkdómum og örorku.
Í grein í Jama Network Open segja bandarískir vísindamenn frá niðurstöðum greiningar þeirra á gögnum sem var aflað með tækjum, sem skráðu hreyfingar fólks, sem fólk bar í allt að sjö daga. 7.607 manns tóku þátt í þessu á árunum 2009 til 2013.
Segja vísindamennirnir að niðurstöður þeirra bendi til þess að þeim mun lengur sem fólk hreyfi sig með miðlungs ákefð þá geti það dregið úr líkunum á heilablóðfalli. Sérstaklega ef hreyfingin er tekin í lengri lotum. Þeir segja að erfitt sé að heimfæra niðurstöðurnar yfir á einstaklinga.
Meðalaldur þátttakendanna var rétt rúmlega 63 ár. Að meðaltali var fylgst með þeim í 7,4 ár. Á þeim tíma fengu 286 heilablóðfall.
Rannsóknin leiddi í ljós að þriðjungur þátttakendanna hafði hreyft sig í að minnsta kosti 14 mínútur á dag og voru 43% minni líkur á að fólk úr þessum hópi fengi heilablóðfall en þeir sem hreyfðu sig í minna en 2,7 mínútur á dag og er þá miðað við miðlungs til töluverðrar ákefðar á meðan á hreyfingunni stóð. Þessar tölur fengust þegar búið var að taka tillit til aldurs, kyns, reykinga, áfengisneyslu, hjartasjúkdóma og kyrrsetutíma.