Allt frá því að veiran kom fram á sjónarsviðið í árslok 2019 hafa bylgjurnar sveiflast þannig að þær hafa verið verstar á haustin og á veturna. Sérfræðingar hafa skýrt þetta með því að við séum meira úti við á sumrin og að veiran þrífist ekki eins vel í hita.
En nýja afbrigðið virðist ekki taka mark á þessu og virðist þrífast ágætlega að sumarlagi og gæti valdið bylgju nú í sumar. TV2 skýrir frá þessu.
Afbrigðið heitir BA.5. Það herjar nú í Portúgal en þar hafa um 86% landsmanna verið bólusettir. Fjöldi smita er enn ekki eins mikill og þau voru í vetur en samt sem áður mörg og raunar næst flest á heimsvísu í dag.
Sebastian Müller, þýskur vísindamaður, segir að afbrigðið geti orsakað sumarbylgju í Þýskalandi og nærliggjandi löndum.
Niðurstöður bandarískrar rannsóknar benda til að afbrigðið sé meira smitandi en önnur og betra í að smita þá sem hafa náð ónæmi með bólusetningu eða fyrra smiti.