Miah og foreldrar margra fórnarlamba byssumanna í nýlegum fjöldamorðum hafa borið vitni fyrir þingnefndinni að undanförnu en í henni sitja fulltrúar úr Demókrataflokknum og Repúblikanaflokknum. Þeir reyna nú að ná saman um breytingar á vopnalöggjöfinni.
Ávarp Miah hafði verið tekið upp fyrir fram en faðir hennar var viðstaddur fund þingnefndarinnar þegar upptakan var leikin.
„Hann bauð kennaranum mínum góða nótt og skaut hana í höfuðið. Síðan skaut hann sum bekkjarsystkini mín og töfluna. Hann skaut vin minn, sem var við hliðina á mér . . . ég hélt að hann myndi koma aftur inn í stofuna. Ég tók blóðið og makaði því á mig,“ sagði hún og lýsti því hvernig hún hefði makað blóðinu á sig og þóst vera dáin til að lifa árásina af. Hún sagðist óttast að ofbeldi af þessu tagi geti aftur átt sér stað í skólanum.
19 skólasystkini hennar voru myrt og tveir kennarar.
Foreldrar eins af látnum börnunum ræddu einnig við þingnefndina í gær.