Þetta er mat ákæruvaldsins en málið er nú fyrir dómi í Glostrup í Danmörku. Móðir stúlkunnar og maður hennar eru ákærð fyrir að hafa svipt stúlkuna frelsi og flutt til Pakistan þar sem þau tóku vegabréf hennar af henni. Móðir hennar og maðurinn eru danskir ríkisborgarar en ættuð frá Pakistan.
Stúlkunni var haldið fanginni á ýmsum stöðum í Pakistan og fékk ekki að fara heim til Danmerkur að því er segir í ákærunni. Þetta stóð yfir í þrjú og hálft ár, eða þar til í október 2020. Ekstra Bladet skýrir frá þessu.
Fram kemur að í ákærunni komi fram að fyrsta árið hafi stúlkan verið læst inni í herbergjum í hinum ýmsu húsum og hafi ekki haft aðgang að síma eða Internetinu. Hún fékk ekki kennslu og fékk ekki að ganga í skóla.
Móðir hennar, sem er 39 ára, og stjúpfaðir hennar, sem er 49 ára, eru ákærð fyrir frelsissviptingu, tilraun til að neyða hana í hjónaband og misþyrmingar. Móðirin er einnig ákærð fyrir að hafa sent dóttur sína til útlanda í aðstæður þar sem „heilsu hennar og þroska var stefnt í hættu“.
Parið er einnig ákært fyrir að hafa ítrekað misþyrmt stúlkunni frá 2015 til 2020. Bæði í Kaupmannahöfn og í Pakistan. Í ákærunni segir meðal annars að í mars 2016 hafi móðirin bundið leiðslu um háls stúlkunnar og sagt „að hún hafi fætt hana inn í þennan heim og geti komið henni út úr honum aftur“.
Móðirin og stjúpfaðirinn hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan í júlí á síðasta ári.