Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að alríkissaksóknarar segi að árásin á þinghúsið hafi verið skipulögð aðgerð sem miðaði að því að koma í veg fyrir að kjör Joe Biden, sem forseta, yrði staðfest af þinginu.
Proud Boys lýsa sér sem klúbbi fyrir „vestræna þjóðernissinna“ og þar sé pólitísk rétthugsun ekki iðkuð. Samtökin eru þekkt fyrir andúð sína á múslimum og ófagra orðræðu um konur. Félagar í samtökunum sýna sig oft á samkomum annarra öfgasamtaka.
Tarrio tók ekki sjálfur þátt í árásinni á þinghúsið en saksóknarar segja að samtökin hafi staðið að baki árásinni og hafi aðstoðað við skipulagningu hennar. Fimm manns létust í árásinni. Fjórir aðrir félagar í samtökunum hafa einnig verið ákærðir vegna málsins.
Tarrio var handtekinn í Washington tveimur dögum fyrir árásina og kærður fyrir að hafa eyðilagt borða, á vegum Black Lives Matter, sem var á kirkju svartra. Það gerði hann í desember 2020.
Proud Boys eru önnur samtökin sem standa frammi fyrir ákæru um samsæri um að steypa ríkisstjórninni eða koma í veg fyrir að bandarískum lögum sé framkvæmt. Mjög sjaldgæft er að ákært sé fyrir brot af þessu tagi.
Ellefu meðlimir í Oath Keepers samtökunum, þar á meðal leiðtogi þeirra Stewart Rhodes, voru ákærðir fyrir brot af þessu tagi fyrr á árinu.