Verkamenn sem grófu á dögunum í rústum íbúðablokkar í Mariupol hafa fundið 200 lík í kjallaranum. Frá þessu sögðu úkraínsk yfirvöld í gær á meðan meiri hryllingur kemur í ljós í rústum borgar sem hefur þurft að þola hvað mest síðustu 3 mánuðina af stríði.
„Líkin voru að rotna og nálykt lá yfir öllu hverfinu,“ sagði Petro Andryushchenko, ráðgjafi borgarstjóra Mariupol. Fjöldi fórnarlambanna gerir þetta að einni banvænustu árás hingað til í stríðinu.
Hart er barist í Donbas þessa stundina og herlið Moskvu beitir öllu sem það getur til að ná völdum yfir því, þar sem Donbas er hjarta úkraínsks iðnaðar.
„Rússarnir keyra fram í allar áttir í einu. Þeir bera með sér fáránlegt magn hermanna og hergagna. Innrásarliðið er að drepa borgirnar okkar, rústa öllu í kring,“ sagði Serhii Haidai héraðsstjóri Dónetsk-óblasts. Hann bætti við að Luhansk væri að verða „eins og Mariupol.“
Mariupol varð fyrir linnulausum árásum stórskotaliðs í þriggja mánaða umsátri sem lauk í síðustu viku. Um 2.500 úkraínskir hermenn héldu lengst út í yfirgefinni stálverksmiðju en þeir gáfu loks upp vopn á dögunum. Rússar höfðu þá völd yfir restinni af borginni, eða því sem eftir stóð af henni.
Í borginni búa enn um 100 þúsund manns, en um 450 þúsund bjuggu þar fyrir stríð. Þeir sem eru enn festust í umsátrinu og lifðu þrjá mánuði í því sem líktist einhverju beint úr hryllingsmynd, með lítið um mat, vatn, hita eða rafmagn.
Að minnsta kosti 21 þúsund manns létu lífið í umsátrinu samkvæmt úkraínskum yfirvöldum. Þau saka Rússa einnig um að reyna að hylja yfir hryllinginn með færanlegri líkbrennslustöð og með því að grafa myrta borgara í fjöldagröfum.