CNN segir að samkvæmt upplýsingum frá kanadískum yfirvöldum hafi þrumuveður herjað á hluta landsins á laugardaginn með þeim afleiðingum að fimm manns létust og nokkrir slösuðust.
Mikið tjón varð á fasteignum, raflínum og gróðri í óveðrunum. Bílar fuku á hvolf og víða var rafmagnslaust.
Þrumuveðrið myndaðist nærri Sarnia í Ontario seint á laugardagsmorgun og fór síðan yfir suðurhluta Ontario í átt til Ottawa um kvöldið.
Rúmlega 350.000 heimili urðu rafmagnslaus. Enn er unnið að því að koma rafmagni á.
Þrumuveður gekk einnig yfir miðhluta Quebec á laugardaginn og misstu rúmlega 500.000 heimili rafmagnið vegna þess. Mikið eignatjón varð þar.