Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Kræftens Bekæmpelse, dönsku krabbameinssamtökunum, þar sem sjónunum er beint að áhrifum félagslegs mismunar á krabbamein.
Jesper Fisker, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að þetta sé „mikill og mjög ósanngjarn“ munur sem eigi ekki að þekkjast í velferðarsamfélagi. Hann sagði að ef maður ímyndi sér að allir krabbameinssjúklingar komist jafn vel í gegnum veikindin og þeir sem eru langskólagengnir þá myndu þriðjungi fleiri krabbameinssjúklingar, með stutta eða miðlungslanga skólagöngu að baki, vera á lífi fimm árum eftir að þeir greinast með krabbamein.
Í skýrslunni kemur fram að líkurnar á að vera á lífi fimm árum eftir greiningu séu 77% hjá þeim sem eru langskólagengnir. Hjá fólki með miðlungslanga skólagöngu að baki, til dæmis starfsnám, eru líkurnar 68% og hjá fólki með stutta skólagöngu að baki eru líkurnar 61%.