Ein milljón hektara er í boði í þeirri von að það takist að lokka eina milljón Rússa norður á bóginn. Rússneska ríkisstjórnin hyggst nýta sér að hitastigið á norðurslóðum fer hækkandi vegna loftslagsbreytinganna og vill reyna að snúa vörn í sókn á þeim slóðum en þar hefur fólki farið fækkandi um langa hríð.
Meðalhitinn á norðurheimskautssvæðinu hækkaði um 3,1 gráðu frá 1971 til 2019 sem er um þrisvar sinnum meiri hækkun meðalhita en á heimsvísu samkvæmt skýrslu frá AMAP sem fylgist með umhverfismálum fyrir hönd Heimsskautaráðsins.
Jótlandspósturinn segir að stærsti hluti þess jarðnæðis sem fólk getur sótt um að eignast núna sé í norðvesturhluta Murmansk sem liggur að Noregi. Gerð er krafa um að fólk búi á svæðinu í minnst fimm ár áður en heimilt er að selja eða leigja landið út.