Það er eiginlega við hæfi að þessi flokkur heitir „OMG“ (Oh My God) á heimasíðu leigumiðlunarinnar. Þar er hægt að sjá sumar af glæsilegustu eignunum sem eru í boði en þær eru margar hverjar einnig eiginlega bara geggjaðar, svo sérstakar og glæsilegar eru þær.
Það er til dæmis hægt að bóka gistingu í vínflösku á Indlandi, kú í Bretlandi eða fljótandi timburhúsi í Frakklandi.
Hér fyrir neðan geturðu séð sum af mest heillandi húsunum, eða jafnvel þeim geggjuðustu.
Hér er til dæmis einbýlishús í Salobrena á Spáni. Þar er pláss fyrir sex manns. Fallegt útsýni er til sjávar, hægt er að ganga beint af svölunum út í ljósbláa sundlaug og hönnun þaksins og hússins er heillandi.
Ef þú nennir að leggja langt flug á þig þá er tilvalið að fara til Indónesíu þar sem er hægt að gista í einbýlishúsi sem er búið til úr bambus. Það er á Balí. Þar er pláss fyrir fjóra gesti í tveimur svefnherbergjum.
Í Quebec í Kanada er Le MICA, sem er lýst sem litlu húsi en ekki er annað að sjá en þar sé nóg pláss og nóg af fersku lofti allt um kring. Sólarupprásin þar er sögð mögnuð sjón og 20 km gönguleiðir liggja í kringum húsið.
Viltu gista í kafbáti? Ef svo er þá er bara að skella sér til Nýja-Sjálands þar sem er hægt að gista í draumakafbáti allra Bítlaaðdánda „Yellow Submarine“. Morgunmatur er innifalinn í gistingunni þar. Kafbáturinn er þó ekki í sjónum því hann er í útjaðri Marton.
Á Isle of Wright í Bretlandi er hægt að gista í strætisvagninum sem var notaður í „Spice–World“ kvikmyndinni sem var gerð 1997 þegar Spice Girls voru á hátindi ferilsins.
Í Suður-Kóreu er hægt að gista í gítarhúsi í Gyeonggi-héraðinu. Tónlistaraðdáendur hljóta bara að sofa vel í þessu húsi.