Sky News segir að vísindamenn við University of Southampton hafi fylgst með fólki og mælt magn mótefna og T-fruma í því en hvoru tveggja sýnir hversu mikla vörn hver og einn hefur gegn veirum.
166 manns tóku þátt í rannsókninni og létu blóðsýni í té. Vísindamennirnir gátu því mælt magn mótefna í blóðinu.
Mælingarnar fóru fram á ýmsum tímum, til dæmis 28 dögum eftir þriðja skammtinn, skömmu áður en fjórði skammturinn var gefinn en það var að meðaltali 200 dögum eftir þriðja skammtinn. Síðan var mælt 14 dögum eftir fjórða skammtinn. Magn mótefna minnkaði á milli þriðja og fjórða skammtsins. 14 dögum eftir fjórða skammtinn jókst það og varð hærra en það náði að verða eftir þriðja skammtinn.
Tólf til sextán sinnum meira magn mótefnis mældist í blóði þátttakendanna 14 dögum eftir fjórða skammtinn en daginn sem þeir fengu hann.
Rannsóknin hefur verið birt í The Lancet Infectious Disease journal.