Norðurkóreskir ríkisfjölmiðlar segja að um „alvarlegt neyðarástand“ sé að ræða. KCNA-fréttastofan segir að sýni úr sjúklingum, sem voru með hita á sunnudaginn, hafi gefið jákvæða svörun og um Ómíkronafbrigði veirunnar sé að ræða. Ekki hefur verið staðfest hvort um eitt eða fleiri tilfelli sé að ræða.
Kim Jong-un, einræðisherra, fundaði með helstu ráðamönnum vegna málsins og í kjölfarið var tilkynnt að gripið verði til aðgerða til að stemma stigum við útbreiðslu veirunnar og verði þær á „hæsta neyðarstigi“. Segir KCNA að leiðtogarnir hafi sagt að markmiðið sé að gera út af við veiruna á eins skömmum tíma og hægt er. Kim Jong-un er sagður hafa fullvissað þjóðina um að sigrast verði á þessu neyðarástandi og þjóðin komi sigurreif út úr þessu.
Kim Jong-un er sagður vilja enn harðari lokun landamæra, sem eru nánast algjörlega lokuð fyrir, og stöðvun samfélagsstarfsemi. Hann bað landsmenn um „að stöðva útbreiðslu þessarar illgjörnu veiru með því að loka heilu svæðunum í bæjum og héruðum um allt land“.
Eins og fyrr sagði er þetta í fyrsta sinn sem norðurkóresk yfirvöld staðfesta að smit hafi greinst í landinu. Margir sérfræðingar hafa þó efast um fyrri frásagnir yfirvalda um að veiran hafi ekki greinst í landinu.
Sérfræðingar segja að heilbrigðiskerfi landsins muni eiga erfitt með að takast á við stóran faraldur veirunnar. Heilbrigðiskerfið er illa á sig komið og ekki bætir það stöðu landsmanna að skortur er á matvælum og öðrum nauðsynjum í landinu. Talið er að enginn hafi verið bólusettur gegn veirunni í landinu en þar búa um 25 milljónir. Stjórnvöld hafa hafnað tilboðum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, Kína og Bandaríkjunum um bóluefni.
Sumir sérfræðingar óttast að vegna þess að enginn er bólusettur í landinu og lítillar mótstöðu landsmanna gegn veirunni geti Norður-Kórea orðið gróðrarstía fyrir ný afbrigði af veirunni.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu brugðust við fréttum næturinnar með því að bjóða grönnum sínum í norðri neyðaraðstoð.