Frá febrúarlokum hafa að minnsta kosti sex olígarkar, sem voru í góðum stöðum í rússneskum fyrirtækjum, dáið. Sumir við ákaflega dularfullar kringumstæður.
Nú síðast var það Aleksandr Subbotin sem bættist í hóp látinna olígarka. Hann var 43 ára og hafði auðgast mjög á viðskiptum með olíu. Hann var áður forstjóri rússneska olíufélagsins Lukoil og var vinur Vladímír Pútíns forseta.
Tass fréttastofan segir að Subbotin hafi fundist látinn í kjallar húss í Mytischi, sem er norðan við Moskvu, á sunnudaginn. Tass hefur eftir húseigandanum, Aleksej Pindyurin, að Subbotin hafi komið heim á laugardaginn og hafi greinilega verið með alvarlega áfengis- og fíkniefnaeitrun.
The Independent segir að Pindyurin sé talinn vera svokallaður „shaman“ sem hafi reynt að aðstoða Subbotin vegna ástands hans. Hafi Subbotin meðal annars fengið „timburmannameðferð“. Í henni fólst meðal annars að hann fékk froskaeitur. Batnaði líðan hans við það en um nóttina lést hann.
Lögreglan rannsakar nú málið eins og hin andlát olígarkanna. Vangaveltur hafa verið uppi um hvort útsendarar stjórnvalda hafi „aðstoðað“ olígarkana yfir móðuna miklu en eins og kunnugt er hefur stjórn Pútíns aldrei verið feimin við að ryðja óæskilegu fólki úr vegi.