Telja vísindamenn að 15.000 veirur muni berast á milli tegunda fram til 2070. Aðallega með leðurblökum sem flytja sig um set eftir því sem hnattræn hlýnun færist í aukana. Sky News skýrir frá þessu og vísar í niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem hefur verið birt í vísindaritinu Nature.
Fram kemur að eftir því sem það hlýnar muni fleiri dýrategundir flytja sig um set og taka sníkjudýr og sýkla með sér og þannig auka líkurnar á að smitsjúkdómar berist úr dýrum í fólk á næstu 50 árum.
Eftir því sem tegundirnar færa sig um set komast þær í snertingu við dýrategundir sem þær hafa aldrei áður komist í snertingu við. Mesta hættan verður á þéttbýlum svæðum, sérstaklega í Afríku og suðaustanverðri Asíu.