Það var almennur borgari sem fann tunnuna þegar hann var staddur við vatnið. Vegna þess hversu mikið yfirborð vatnsins hefur lækkað sást tunnan. Ekki leyndi sér að lík var í henni því hún var tærð og það sást ofan í hana.
CNN segir að í tilkynningu frá Ray Spencer, hjá lögreglunni í Las Vegas, komi fram að líklega hafi viðkomandi verið myrtur, skotsár sé á líkinu.
Í tilkynningunni segir að líklega hafi viðkomandi verið myrtur á tímabilinu frá miðjum áttunda áratugnum þar til á miðjum níunda áratugnum. Sé það mat byggt á fatnaði og skóm fórnarlambsins. Lögreglan vinnur nú að því að bera kennsl á líkið.
Spencer sagði að yfirborð vatnsins hafi lækkað mjög mikið síðustu 15 árin og „líklega finnum við fleiri lík sem hefur verið kastað í Lake Mead“ þegar vatnsyfirborðið lækkar enn frekar.
Vatnið, sem er manngert, var fyllt á fjórða áratugnum. Síðast var það fullt árið 2000. Vatnsmagnið í því hefur aldrei verið minna en nú er.