Rússneski sjónvarpsmaðurinn Dimitry Kiselyov lét afar óhugnanleg ummæli falla í sjónvarpsþætti sem sýndur var á rússneskri ríkissjónvarpstöð. „Eitt skot Boris og þá er England úr sögunni,“ sagði Kiselyov á meðan hann stóð fyrir framan kort af Evrópu. Á kortinu mátti sjá Bretland vera að þurrkast út. Daily Mail fjallaði um ummæli sjónvarpsmannsins í dag.
Kiselyov er afar hliðhollur Vladimir Pútín, forseta Rússlands, og hefur sýnt það og sannað með framkomu sinni í sjónvarpinu þar í landi. Hann hefur verið uppnefndur sem „málgagn Pútíns“.
Í þættinum sem um ræðir var Kiselyov reiður út í Bretland og sagði að landið ætti ekki roð í Rússland. Ástæðan fyrir þessari reiði í garð Bretlands er sú að landið hefur sent birgðir af vopnum til Kyiv, höfuðborgar Úkraínu.
Svo virðist vera sem Kiselyov, líkt og fleiri Rússar, telji að Bretland ætli sér að skjóta kjarnorkusprengju á Rússland. Útbreiddar rangfærslur hafa verið á lofti í Rússlandi um að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi hótað Rússlandi með kjarnorkuvopnum Bretlands.
„Hví hóta þeir hinu mikla Rússlandi með kjarnorkuvopnum, þeir eru einungis á lítilli eyju. Eyjan þeirra er svo lítil að ein Sarmat eldflaug er nógu stór til að drekkja henni fyrir fullt og allt,“ sagði Kiselyov í þættinum.
Sarmat eldflaugin sem Kiselyov talaði um hefur verið kölluð Satan-2 en um er að ræða eldflaug sem getur ferðast gríðarlega hratt. Hún flaug yfir nánast allt Rússland á einungis 15 mínútum og sagði Kiselyov að hún gæti verið komin til London einungis 202 sekúndum eftir að henni er skotið. Þá sagði hann að hún gæti ferðast til Berlínar á 106 sekúndum og til Parísar á 200 sekúndum.