The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að skilaboðin verði byggð upp á grundvallaratriðum stærðfræði og eðlisfræði en vísindamennirnir vonast til að hugsanlegir móttakendur skilaboðanna geti lesið úr slíkum upplýsingum, þær séu einhverskonar alheimstungumál.
Skilaboðin munu einnig innihalda upplýsingar um staðsetningu jarðarinnar og um líffræðilega samsetningu lífs á jörðinni, þar á meðal um DNA okkar mannanna.
Skilaboðin eru nefnd „Beacon in the Galaxy“ og er ætlunin að senda þau í átt að hjarta Vetrarbrautarinnar en þar telja vísindamenn mestar líkur á að finna líf.
Hinn heimsþekkti eðlisfræðingur Stephen Hawking, sem var sannfærður um að vitsmunalíf þrífist utan jarðarinnar, var algjörlega mótfallinn því að reynt yrði að hafa samband við vitsmunaverur utan jarðarinnar. Hann rökstuddi þessa afstöðu sína með því að vísa í það þegar Kólumbus kom til Ameríku en „það endaði ekki vel“ að hans mati.
Vísindamennirnir, sem standa að Beacon in the Galaxy, eru hins vegar mun bjartsýnni. Þeir telja að þróaðar vitsmunaverur muni mjög líklega átta sig á hversu verðmætt það er að halda friðinn og starfa saman og að við getum lært mikið af þeim.
Áður en skilaboðin verða send verður að endurbæta nokkur af stærstu útvarpsloftnetunum okkar til að þau geti sent nægilega öflug merki til heima í órafjarlægð.
Það eru um 26.000 ljósár frá jörðinni til miðju Vetrarbrautarinnar og það er sá tími sem það mun taka skilaboðin að ná alla leið inn að miðjunni.
Núverandi kynslóðir munu því ekki lifa það af að upplifa þá stund að svar berst hugsanlega og raunar verða margar kynslóðir manna horfnar á vit feðra sinna áður en hugsanlegt svar berst og raunar spurning hvort mannkynið verði enn til þegar og ef sú stund rennur upp að svar berist eða geimverur komi í heimsókn.