The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að það hafi verið Semeh Bejaoui og Dorte Frees, hjá Kaupmannahafnarháskóla, og Søren Persson, hjá dönsku smitsjúkdómastofnuninni, sem hafi gert þessa uppgötvun en rannsókn þeirra beindist að ofurbakteríunni Clostridiodes difficile en hún er talin ein hættulegast ónæma bakterían á heimsvísu.
Bejaoui sagði að rannsóknin bendi til að bakterían geti borist í fólk úr dýrum. Það bendi til að sýklalyfjaónæmi geti breiðst meira og hraðar út en áður var talið og staðfesti tengsl á milli sýklalyfjaónæmis í dýrarækt og manna.
Clostridiodes difficile veldur sýkingu í meltingarvegi fólks og er bakterían ónæm fyrir öllum sýklalyfjum nema þremur. Talið er að hún hafi valdið 223.900 sýkingum í Bandaríkjunum árið 2017 og orðið 12.800 manns að bana.
Talið er að árlega látist 750.000 manns af völdum baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Óttast er að um miðja öldina verði þessi tala komin upp í 10 milljónir.