The Guardian segir að 226 vörur hafi verið rannsakaðar í verslunum fimm verslanakeðja. Í ljós kom að í 120 þeirra hafi verið að minnsta kosti eitt efni sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Meðal þessara vara voru litrík barnaleikföng og heyrnartól með Disney þema.
„Sem foreldri á ég að geta keypt vörur án þess að eiga von á að eitra fyrir barninu mínu,“ sagði Jose Bravo, verkefnisstjóri hjá the Campaign for Healthier Solutions.
Í rannsókninni fundust efni á borð við þalat, sem hefur verið tengt við hærri tíðni krabbameins hjá börnum. Einnig kom í ljós að gervitennur voru búnar til úr PVC sem getur innihaldið efni sem raska starfsemi kirtlanna og getur skaðað þroska kynfæranna og andlegan þroska. Börn eru í sérstökum áhættuhópi hvað þetta varðar.
Jeff Gearhart, rannsóknarstjóri hjá Ecology Center Healthy Stuff Lab, sem gerði rannsóknina, sagði að til séu önnur vel þekkt efni sem er hægt að nota í stað þessara eiturefna. Það sé alvarlegt vandamál að enn sé verið að nota þessi eiturefni í ódýrar vörur. Hann sagði að framleiðendur og söluaðilar verði að bæta sig í þessum málum.