Það er einfaldlega ekki góð hugmynd að drekka áfengi fyrir flugferð. Í umfjöllun Ladbible um málið kemur fram að sérfræðingar segi að best sé fyrir fólk að halda sig við óáfenga drykki.
Ástæðan er að aðstæðurnar í farþegarými flugvélar eru sérstakar. Þrýstijöfnun er notuð þar en hún dregur úr getu líkamans til að vinna úr súrefni. Þess utan er rakastigið í flugvélum yfirleitt svo lágt að fólk er þyrstara en það er vant.
Þetta tvennt ásamt þeirri staðreynd að áfengisneysla stuðlar að því að líkaminn þornar gerir að verkum að ekki er snjallt að drekka áfengi fyrir flugferð eða á meðan á henni stendur.
Ritesh Bawri, næringarfræðingur og sálfræðingur, sagði í samtali við NDTV Food að í 10 klukkustunda flugferð geti fullorðinn manneskja losað sig við allt að tvo lítra af vatni. Ef áfengi sé drukkið í flugferðinni geti vökvatapið orðið enn meira.
Þar sem súrefnismagnið í flugvélum er lægra en á jörðu niðri verður fólk fljótar drukkið í háloftunum en á jörðu niðri.