Daily Mail segir að þeir hafi farið yfir mörg þúsund kínverskar sjúkraskýrslur og hafi þannig komist að því hvernig Kínverjar bera sig að við að nota líffæri úr föngum við ígræðslur.
Rannsóknin hefur verið birt í American Journal of Transplantation. Í henni er komist að þeirri niðurstöðu að uppgefin dánarorsök sé ekki í samræmi við þau læknisfræðilegu inngrip sem 56 kínversk sjúkrahús skráðu. Þess í stað voru hjörtu tekin úr föngum áður en þeir voru heiladauðir. Hjörtun voru síðan notuð við líffæraígræðslur.
Baráttufólk fyrir mannréttindum segir að þetta „segi hræðilega sögu morða og limlestinga í Kína“ og að sögurnar sem berist af framferði kínverska kommúnistaflokksins séu „næstum of hræðilegar til að hægt sé að trúa þeim“.