Meira en 100 einstaklingar sem tengjast öll skóla í New Jersey-fylki í Bandaríkjunum hafa greinst með illvígt heilaæxli, glioblastoma multiforme, sem er afar sjaldgæft. Venjulega greinast um 3 af hverjum 100.000 þúsund einstaklingum með krabbameinið og því er þessi fjöldi sem tengist einum skóla, Colonia High School, afar óvenjulegur.
Hinn 50 ára gamli Al Lupino gekk í Colonia High School og fyrir um tuttugu árum greindist hann með heilaæxli. Eftir erfiða meðferð vann hann sigur á krabbameininu. Grunsemdir fóru þó að vakna þegar eiginkona hans og systir, sem báðar gengu í Colonia High School, greindust einnig með heilaæxli mörgum árum síðar. Eiginkona Al, Michelle, vann einnig bug á veikindum sínum en sömu sögu er ekki að segja um systur Lupino, Angelu, sem lést í mars síðastliðnum, aðeins 44 ára gömul.
Al, sem er umhverfisverkfræðingur, tók þá til sinna ráða og auglýsti á Facebook eftir fólki sem tengdist Colonia High School og hefði greinst með sama krabbamein. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og 102 manns eða ættingjar þeirra hafa stigið fram sem höfðu gengið í skólann eða unnið þar, flest á árunum 1975 til 2000, og höfðu greint með krabbameinið illvíga. Nýjasta tilvikið var þó frá einstaklingi sem hafði verið í skólanum árið 2014.
Al vakti athygli sveitarfélagsins á málinu og nú hefur rannsókn verið sett af stað til þess að því hvað gæti valdið veikindunum. Sjálfur telur hann að einhverskonar mengun sé í lóð eða húsnæði skólans sem valdi veikindunum.
„Það er bara einhverskonar geislun sem getur valdið þessu,“ er haft eftir Al í umfjöllun Daily Mail..
Hann segist hafa gefið systur sinni loforð á dánarbeði hennar. „Ég mun ekki hvílast fyrr en ég hef svör. Ég mun komast að sannleikanum,“ segir Al.
Al hefur sjálfur sett fram þá kenningu að 20 kílómetrum frá var verksmiðja sem meðhöndlaði úraníum sem var meðal annars notað í kjarnorkusprengjur. Verksmiðjunni var lokað árið 1967 sama ár og Colonia High School var byggður. „Það er möguleiki að mengaður jarðvegur hafi verið fluttur þaðan og á byggingarsvæði skólans,“ segir Al.