Berger segir að maðurinn hafi numið hann á brott og krafist verulegrar upphæðar í lausnargjald fyrir hann. Mannránið varði þó aðeins í um eina klukkustund því Berger fullvissaði manninn um að hann myndi greiða honum lausnargjaldið og var þá sleppt.
Í tilkynningu frá Berger segir að mannránið hafi aðeins snúist um peninga og að staða hans sem yfirmanns bólusetningarmála hafi ekki tengst því á neinn hátt.
Þýski miðillinn Watson segir að Þjóðverjinn hafi haft mikil tengsl við samsæriskenningasmiði.
Berger tilkynnti lögreglunni um málið og tókst henni að rekja slóð mannræningjans en hann hafði búið í Sviss árum saman. Á miðvikudag í síðustu viku umkringdi lögreglan heimili hans í Zürich. Þá kom til skotbardaga á milli hans og lögreglumanna. Maðurinn særðist illa og lést skömmu síðar af völdum áverka sinna. Í húsinu fann lögreglan 28 ára unnustu hans. Hún var látin er að var komið og telur lögreglan að maðurinn hafi drepið hana.