Sky News segir að breska matvælaeftirlitið hafi sent frá sér aðvörun um að hætta sé á að sólblómaolía innihaldi eitthvað annað en sólblóm. Í tilkynningu frá eftirlitinu segir að megnið af sólblómaolíunni sem er notuð í Bretlandi komi frá Úkraínu. Líklegt sé að framleiðendur verði uppiskroppa með hana á næstu vikum. Þetta hafi leitt til þess að sumir framleiðendur hafi skipt yfir í repjuolíu áður en þeir gátu breytt merkingu á umbúðum sínum.
Af þessum sökum segist matvælaeftirlitið vara við því að olía sem er sögð vera sólblómaolía sé ekki endilega sólblómaolía, hún geti verið úr repju.