Welt skýrir frá þessu. Fram kemur að veitingastaðurinn Gaffel am Dom í Köln hafi ekki getað verið með franskar kartöflur á matseðlinum síðan 1. apríl. Erwin Ott, eigandi veitingastaðarins, sagði að hér væri ekki um aprílgabb að ræða: „Ég vildi óska að þetta væri aprílgabb,“ sagði hann.
Hann sagði að veitingastaðurinn þurfi um 100 lítra af matarolíu í viku hverri til að geta boðið upp á alla þá rétti sem eru venjulega á matseðlinum. En þessa dagana fær veitingastaðurinn aðeins brot af því magni.
Ástæðan fyrir matarolíuskortinum er stríðið í Úkraínu. Úkraína og Rússland eru einir stærstu framleiðendur matarolíu í heiminum. Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu hafa Úkraínumenn ekki sent nærri því jafn mikið magn af matarolíu úr landi og fyrir stríð. Það er farið að hafa áhrif í Þýskalandi og mun væntanlega einnig hafa áhrif víðar um heim þegar fram í sækir.