Í fréttatilkynningu frá danska ríkissjúkrahúsinu kemur fram að rannsóknin hafi leitt í ljós að það að innbyrða mikið magn af parasetamóli geti haft áhrif á virkni sæðisfrumna og þar með hugsanlega möguleikum karla á að barna konur.
Vísindamennirnir segja að það sé í raun ekki sjálft parasetamólið sem sé vandinn. Það séu umbrotsefni, sem parasetamól breytist í í sæði karla, sem trufli eðilega starfsemi sæðisfrumna.
Segja vísindamennirnir að þetta sé hugsanleg skýring á niðurstöðum eldri bandarískra rannsókna sem hafa sýnt að karlar, sem hafa notað mikið af parasetamóli, eigi erfitt með að barna konur.
„Þessi hugsanlegu tengsl hafa valdið okkur áhyggjum en við gátum ekki útskýrt þetta,“ er haft eftir David Møbjerg Kristensen, rannsóknastjóra hjá ríkissjúkrahúsinu, í fréttatilkynningunni.