Sæljónin byrjuðu að herja á Cermaq‘s Rant Point fiskeldisstöðina, sem er nærri Tofino í Bresku Kólumbíu, þegar byrjað var að slátra fiski þar. Ágengni sæljónanna færðist síðan í vöxt og síðasta laugardag voru að minnsta kosti tuttugu dýr sem gæddu sér á laxi úr kvíunum.
Náttúruverndarsinnar eru ekki að skafa utan af hlutunum þegar þeir ræða um málið og Bonny Glambeck, sem starfar á vegum Clayoquot Action society, sagði að sæljónin væru að gæða sér á hlaðborði þessa dagana.
Myndband, sem var tekið á laugardaginn, sýnir sæljón inni í fiskeldisstöðinni þar sem er hægt að vera með allt að 500.000 laxa í kvíum. Sæljónin sjást úða í sig fiski og fara á milli kvía.
Cbc segir að Glambeck hafi lýst yfir áhyggjum af að ef sæljónin hafi sloppið inn í gegnum gat á girðingunni þá þýði það laxar hafi getað sloppið úr eldisstöðinni. Fulltrúar eldisstöðvarinnar sögðu að sæljónin hafi ekki komist inn um gat, þau hafi einfaldlega hoppað yfir girðingar.