Árið 1987 var Vicki Heath, 41 árs gömul tveggja barna móðir, myrt í Kentucky í Bandaríkjunum. Tveimur árum síðar voru þær Margaret „Peggy“ Gill, 24 ára, og Jeanne Gilbert, 34 ára, myrtar í nágrannaríkinu Indiana. Morðin á þessum þremur konum höfðu verið óleyst í rúma þrjá áratugi en nú telur lögreglan í Indiana að hún viti hver var að verki í morðunum.
Lögreglan telur að Harry Edward Greenwell sé hinn alræmdi „Days Inn morðingi“, eins og hann hefur verið kallaður í umfjöllun um málið árum saman. Greenwell lést í Iowa í Bandaríkjunum fyrir 9 árum síðan, 68 ára að aldri. Samkvæmt New York Times herjaði hann á konur sem unnu á vegahótelum, eða mótelum eins og þau eru gjarnan kölluð.
Lík Heath fannst fyrir aftan Super 8 mótelið sem hún starfaði hjá. Tveimur árum síðar fannst lík Gill í tómu rými á móteli í Days Inn-keðjunni og einungis tveimur og hálfum tíma síðar var Gilbert rænt af öðru Days Inn móteli. Lík Gilbert fannst í um 24 kílómetra fjarlægð frá mótelinu sem hún vann hjá. Allar konurnar báru þess ummerki um að hafa verið misnotaðar kynferðislegar en þær voru svo í kjölfarið myrtar með skotvopni.
Engin vitni voru að morðunum og því reyndist erfitt að leysa þau. Árið 1990 lét „Days Inn morðinginn“ til skarar skríða aftur, á enn öðru móteli í Days Inn-keðjunni. Kona sem vann í móttökunni á því móteli sagði mann hafa komið inn, hótað sér með hníf og nauðgað sér. Þessi árás var í fyrstu ekki tengd við morðin á hinum mótelunum en nú, mörgum árum síðar, notuðust yfirvöld við DNA-tækni til að tengja Greenwell við nauðgunina sem og morðin þrjú.