Einnig er vitað að ofureldfjöll hafa gosið í Yellowstone í Bandaríkjunum og í flóanum við Napólí á Ítalíu en þar búa milljónir manna í dag.
En hver er undanfari ofureldgosa? Henning Andersen, eldfjallasérfræðingur, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að þegar gos í ofureldfjalli er í uppsiglingu ríði jarðskjálftar yfir dögum saman, margra kílómetra langar sprungur opnist og úr þeim stígi síðan öskuský 50 kílómetra upp í himininn.
Öskuskýin berast síðan með vindum um stærsta hluta heimsins. Himinn verður svartur. Glóandi gas- og öskuský þjóta á mörg hundruð kílómetra hraða yfir nærliggjandi svæði. Þau brenna og eyða öllu sem verður á vegi þeirra.
Himininn mun myrkvast og svört, öskumettuð rigning falla til jarðar. Sólarljós nær ekki til jarðar í sama magni og venjulega. Sprengingarnar verða svo öflugar að þær munu heyrast um mest alla jörðina. Margra sentimetra þykkt öskulag mun leggjast yfir víða um heiminn og hver einasta lífvera á jörðinni mun finna fyrir áhrifum gossins.
Hitastig mun lækka, landbúnaður verður fyrir miklum áhrifum, hungursneyð mun skella á og flugumferð leggst af að mestu eða öllu leyti.