Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að það séu breskir vísindamenn sem hafa unnið að nýrri útgáfu teixobactin sameindarinnar en talið er að hún geti drepið bakteríur án þess að skemma vefi spendýra. Niðurstöður tilrauna benda að minnsta kosti til þess.
Við tilraunir á músum gerði lyfið út af við MRSA, sem er þekkt ofurbaktería sem er ónæm fyrir fjölda mikið notaðra sýklalyfja.
Sky News segir að Teixobatctin hafi fyrst verið nefnt sem „byltingarkennt“ sýklalyf 2015 en í nýju rannsókninni hafi verið búin til ný „gervi“ útgáfa af lyfinu. Hægt er að geyma þessa „gervi“ útgáfu við stofuhita en það auðveldar notkun lyfsins til mikilla muna. Í nýju útgáfu lyfsins er búið að skipta ákveðnum amínósýrum út með ódýrari efnum. Með þessu segja vísindamenn að tekist hafi að lækka hráefniskostnaðinn mjög mikið.
Árið 2019 létust rúmlega 1,2 milljónir manna af völdum ónæmra baktería. Þetta kemur fram í rannsókn sem var birt í vísindaritinu The Lancet í janúar 2021.