The Guardian skýrir frá þessu og vísar í vísindagrein, sem Donato Amado Gonzales, perúskur sagnfræðingur, og Brian S. Bauer hjá University of Illinois í Chicago, skrifuðu. Í greininni segja þeir að þeir hafi leitað að nafni bæjarins í mörgum skjölum, þar á meðal á kortum frá nítjándu öld, skjölum frá sautjándu öld og minnisblöðum Hiram Bingham, sem er talinn hafa fundið bæinn á nýjan leik. Þeir segja að hvergi sé talað um Machu Picchu.
The Guardian hefur eftir Bauer að þeir hafi einnig skoðað mörg kort, sem voru gerð fyrir tíma Bingham, í leit að réttu nafni bæjarins. Þá hafi þeir komist að því að Machu Picchu hafi líklegast heitið Picchu og enn líklegra sé að hann hafi heitið Huaya Picchu. Hann vísar þar meðal annars í atlas frá 1904 þar sem bærinn er nefndur Huaya Picchu.
Bærinn hefur verið mikið aðdráttarafl fyrir vísindamenn allt frá því að hann fannst. Í ágúst á síðasta ári komst hópur bandarískra vísindamanna að þeirri niðurstöðu að hann sé líklega 30 árum eldri en áður var talið. Talið var að hann hafi verið reistur 1450 en við rannsókn á nokkrum beinagrindum, sem Bingham fann þegar hann fann bæinn á nýjan leik, kom í ljós að þær voru frá því um 1420.