Myndin var af henni og Cheyenne og var tekin þegar þær voru úti að skemmta sér þessa örlagaríku nótt.
Brittney skilaði sér ekki heim eftir næturskemmtunina. Lík hennar fannst á ruslahaug í bænum. Eins og gefur að skilja var morðið mikið áfall fyrir bæjarbúa og lögreglan lagði mikla vinnu í rannsókn málsins.
CBC News segir að rannsóknin hafi leitt til þess að böndin beindust að Cheyenne og var það vegna ljósmyndarinnar sem Brittney hafði birt á Facebook. Ástæðan er að við hlið líks Brittney fannst svart belti sem hafði verið notað til að kyrkja hana. Þegar lögreglumenn skoðuðu ljósmyndina sáu þeir að Cheyenne var með nákvæmlega eins belti. Það var því engin furða að lögregluna grunaði að Cheyenne hefði myrt bestu vinkonu sína.
Cheyenne hafði reynt að villa um fyrir lögreglunni og öðrum því nóttina, sem Brittney var myrt, birti hún færslu á Facebook þar sem hún spurði hvort einhver vissi hvar Brittney væri. Þegar hún var færð til yfirheyrslu sagði hún að þær hefðu skemmt sér saman allt kvöldið og fram á nótt. Þær fóru að hennar sögn á Colonial Pub and Grill þar sem þær hittu ókunnugan mann.
En lögreglan gat hrakið þessa frásögn því upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýndu að hvorki Cheyenne né Brittney höfðu komið á Colonial Pub and Grill þetta kvöld eða nótt. Hvað þá að þær hefðu hitt ókunnugan mann þar.
Hér var farið að þrengja að Cheyenne og það virðist hafa haft áhrif á hana því hún játaði fyrir vinkonu sinni að hún hefði kyrkt Brittney eftir að þær höfðu rifist. Vinkonan skýrði lögreglunni frá þessu og í framhaldinu var Cheyenne handtekin. Þegar hún var yfirheyrð sagðist hún ekki muna eftir að hafa kyrkt Brittney en neitaði ekki að hafa orðið henni að bana.
Hún var fundin sek um morð og dæmd í sjö ára fangelsi.