Ef þú vilt þvo á stuttu prógrammi í þvottavélinni þinni þá er eitt sem þú þarft að hafa sérstaklega í huga.
Það er ekki gott að þvo þungan þvott, til dæmis handklæði, á stuttu prógrammi því það getur eyðilagt tromluna. Daily Star skýrir frá þessu og vitnar í ráðleggingar frá verslunarkeðjunni Wades sem selur heimilistæki.
Eigandi keðjunnar sagði í nýlegu myndbandi að hann ráði fólki frá að þvo þungan þvott á stuttu prógrammi. Það séu til önnur og betri prógrömm til þess sem eyðileggi ekki tromluna.
„Ef þú ert með fullt af handklæðum, skaltu ekki nota stutt prógramm. Þú setur handklæðin í vélina, setur hana í gang, vatni er dælt inn og handklæðin verða mjög þung. 28 mínútur duga ekki til að tromlan geti skilið handklæðin að,“ sagði hann.
Hann sagði ef handklæði séu þvegin á stuttu prógrammi þá endi prógrammið á því að tromlan snúist hratt og ef handklæðin séu öll föst saman þá geti það eyðilagt tromluna. Hann ráðleggur fólki að nota prógramm upp á minnst 90 mínútur þegar handklæði eru þvegin.