CNN skýrir frá þessu og segir að þessi ákvörðun bendi til að kanadíska stjórnin sé nú nær því en áður að taka ákvörðun um kaup á orustuþotum en hún hefur dregið lappirnar með það í rúman áratug. Nú er hún hins vegar undir miklum þrýstingi um að taka ákvörðun og er það stríðið í Úkraínu sem veldur því.
Það hefur staðið til í rúman áratug að skipta gömlum F-18 orustuþotum kanadíska flughersins út en eitt og annað hefur komið upp á sem hefur seinkað ákvarðanatöku.
F-35 vélar eru notaðar af bandaríska flughernum og ýmsum NATO-ríkjum og hafa sannað sig sem góðar og áreiðanlegar vélar sagði Anita Anand varnarmálaráðherra.
Samningaviðræður hefjast fljótlega við Lockeed Martin og vonast kanadíska ríkisstjórnin að þeim ljúki á þessu ári og að fyrstu vélarnar verði afhentar 2025. Verðmæti samningsins verður um 15 milljarðar dollara.