Í nýlegri umfjöllun The Guardian var fjallað um eitt og annað tengt orkunotkun og kostnaði við hana. Meðal annars kom fram að það er ódýrara að hita vatn í hraðsuðukatli en potti. Ástæðan er að ketillinn hitar innan frá og vatnið um leið en potturinn þarf að hitna utan frá og þarf því meiri hita til að hita vatnið. Hraðsuðuketill er því fyrri til að sjóða vatn og þarf minni orku til þess.
Hvað með hleðslutæki, til dæmis fyrir farsíma, sem eru í sambandi þegar ekki er verið að hlaða? Eyða þau rafmagni þrátt fyrir það? Í umfjöllun The Guardian kemur fram að það sé mat British Gas að hægt sé að draga úr heildarraforkunotkun Breta um 23% ef hleðslusnúrur eða hleðslutæki, sem kveikt er á, eru tekin úr sambandi þegar ekki er verið að hlaða. Undir þetta falla einnig raftæki sem slökkt er á með fjarstýringu, til dæmis sjónvörp og hljómflutningstæki. Öll nota þessi tæki rafmagn á meðan. Haft er eftir fulltrúa British Gas að það sé um að gera að taka raftæki úr hleðslu um leið og þau eru fullhlaðin því það spari rafmagn og lengi líftíma rafhlöðunnar.
Hvað varðar það að hita mat upp þá segja sérfræðingar að ódýrara sé að nota örbylgjuofn til þess en að hita matinn á eldavélinni.
Þegar kemur að þvotti segja sérfræðingar að það sé alveg óhætt að þvo föt á undir 40 gráðum. Margir þvottaefnisframleiðendur auglýsi einmitt að þvottaefnin þeirra henti vel til þvotta á lægri hita en 40 gráðum og er þá oft talað um 30 gráður. The Guardian hefur eftir sérfræðingum að bara það eitt að þvo við 30 gráður í stað 40 dragi úr rafmagnsnotkun um 40%.
En er ódýrara að fara í sturtu en bað? Í umfjölluninni kemur fram að í venjulegt bað þurfum 90 lítra af vatni. Venjulegt blöndunartæki í sturtu dæli um 9 lítrum í gegn á mínútu. Það þýði að ef sturtan vari skemur en 10 mínútur þá sé hún væntanlega ódýrari en að farið sé í bað.