Eitt þeirra fyrirtækja sem nýtur góðs af þessu er Rising S Company (Rising Bunkers) sem framleiðir margvísleg byrgi og sér um að koma þeim heim til fólks og koma fyrir á viðeigandi stöðum. Í samtali við The Guardian sagði Gary Lynch, stjórnarformaður fyrirtækisins, að á venjulegum mánuði komi um 100 fyrirspurnir um byrgi en síðasta mánuðinn hafi þær verið um 300.
Hann sagði að almennt hafi fyrirspurnum fjölgað um 1.000% síðan 2018. Hann sagðist telja að Bandaríkjamenn séu almennt orðnir hræddari um öryggi sitt, meðal annars vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, loftslagsbreytinganna og deilna í samfélaginu.
Hann sagði að á einum degi í febrúar hafi hann selt fimm byrgi á verðinu 70.000 til 240.000 dollara. „Það er augljóst að sumir sögðu: „Ég sagði að við þyrftum að fá svona,““ þegar rætt var um þessi mál á heimilinu.
Annað fyrirtæki, sem starfar á sama markaði, er ekki feimið við að notfæra sér stríðið í Úkraínu til að auglýsa vörur sínar: „Nú þegar stríð geisar í Úkraínu og þriðja heimsstyrjöldin er hugsanlega hafin, þá óskar þú þess örugglega að þú eigir byrgi frá Vivo.“