Í samtali við Just The News hvatti Trump Pútín til að afhenda gögn um Hunter Biden, son Joe Biden Bandaríkjaforseta. Trump segir að Hunter hafi átt í viðskiptum í Rússlandi upp á milljónir dollara. CNN skýrir frá þessu.
Trump heldur því fram að Hunter Biden hafi stundað ólögleg viðskipti með Yelena Nikolayevna Baturina, kaupsýslukonu, sem var gift Yury Luzhkov fyrrum borgarstjóra Moskvu sem lést 2019.
„Hún lét hann fá 3,5 milljónir dollara og ég held að Pútín viti af hverju. Ég tel að hann eigi að leggja sannanirnar fram. Við ættum öll að fá að vita sannleikann,“ sagði Trump.
Ekkert hefur komið fram sem sannar að Hunter Biden hafi gert eitthvað af sér og hann hefur neitað öllum ásökunum um slíkt. Hann hefur sakað Trump um að dreifa lygum um sig. Í október 2020 sagði Pútín að hann vissi ekki neitt um ólögleg tengsl eða viðskipti Hunter og Baturina.