Mirror skýrir frá þessu. Bill Browder, kaupsýslumaður, starfaði lengi í Rússlandi og átti viðskipti þar. Í samtali við Wall Street Journal sagði hann að spilling hafi lamað rússneska herinn. „Ég tel að 80% af framlögunum til hersins sé stolið af rússneskum hershöfðingjum því 80% af öllum fjárframlögum í Rússlandi er stolið af embættismönnum,“ sagði hann.
Hann sagði að þar sem yfirmenn steli launum af óbreyttum hermönnum þá steli þeir eldsneyti af skriðdrekum til að selja á svarta markaðnum, þannig nái þeir sér í aukatekjur.
Mirror segir að í tilkynningu frá úkraínska varnarmálaráðuneytinu á Telegram komi fram að búið hafi verið að stela ýmsum verðmætum búnaði, sem inniheldur gull og aðra verðmæta málma, úr skriðdrekunum.
Bowder sagði að spillingin nái alveg upp í efstu lög stjórnkerfisins og er þá skemmst að minnast þess að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, hefur sankað miklum auð að sér. Telja sumir að hann eigi allt að 200 milljarða dollara í ýmsum eignum og reiðufé. Ef það er rétt þá er hann næstum jafn auðugur og Elon Musk sem er talinn auðugasti maður heims í dag.